Ilmurinn sem barst úr þremur kennslueldhúsum Menntaskólans í Kópavogi rétt upp úr klukkan ellefu á laugardaginn var magnaður. Keppendur frá 16 grunnskólum, sá lengsti að kom alla leið frá Sauðarkróki, söxuðu, steiktu, hrærðu og bökuðu og báru svo fram lystilega eldaða og framreidda rétti. Niðurstaða dómnefndar var að rétturinn "á brokki", hrossalund með humarhölum, sem Aðalsteinn Bjarni Sigurðsson, Ágústa Sólveig Sigurðardótti og Björg Jósepsdóttir elduðu væri sá lang besti. Þau koma úr Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði og munu ásamt kennara sínum, Helgu Gunnarsdóttur fara í sælkeraferð til London í lok maí. Ferðin er gefin af styrktaraðilum keppninnar, Hagkaup, Innnes og Flugleiðum. Þau fengu líka eignarbikar og farandbikar til varðveislu í ár eða þar til keppnin verður haldin að nýju og nýr skóli tekur við titlinum grunnskólameistari Íslands í matreiðslu. Hamraskóli varð í öðru sæti með réttinn "lostæti hreppstjórans", innbakað nautalund með parmaskinku en Arna Ýr Guðnadóttir, Heiðdís Ósk Pétursdóttir og Þórunn Sif Ingimundardóttir elduðu hann. Þær ásamt kennara sínum, Ingibjörgu Hólm Einarsdóttur fengu gjafabréf fyrir tvo á sælkeraveislu á veitingastaðnum Silfrinu. Í þriðja sæti með "grillaðan hlýra með tómatsultu og hvítlaukskremi" varð svo Engjaskóli en Karl Ágúst Hreggviðsson, Theodór Páll Theódórsson Valur Hreggviðsson og Ásgerður Júlía Ágústsdóttir elduðu þann rétt lystilega vel. Þau ásamt kennara sínum, Jónasi Jónassyni, fengu gjafabréf fyrir 2 á sælkeraveislu að hætti veitingastaðarins Brons.
Heilbrigðisráðherra sagði við afhendingu verðlauna að það væri gaman að sjá að réttirnir sem krakkarnir elduðu væru ekki bara glæsilegir og girnilegir heldur líka hollir.
Uppskriftir að réttunum og myndir frá keppninni koma inn á síðuna á næstu dögum.
Starfsfólk Menntaskólans í Kópavogi, Baldur Sæmundsson og Ragnar Wessmann ásamt þeirra fólki ásamt dómnefnd, áhorfendum og ekki síst keppendum sjálfum, ljósmyndari kokkakeppni.is, Ólafur K. Ólafsson og dómvörður og sérleg aðstoðarkona, Inga Lára Pétursdóttir skrifstofustjóri Rimaskóla eiga miklar þakkir skilið fyrir framlag sitt til keppninnar. Einnig styrktaraðilar kokkakeppni grunnskóla Íslands, Hagkaup, Innnes, Flugleiðir, SIlfrið og Brons ásamt Menntasviði Reykjavíkur en án þeirra framlags hefði keppnin ekki orðið að þessum glæsilega atburði!